Viðskipti innlent

Allir sammála um að halda stýrivöxtum óbreyttum

Allir nefndarmenn í Peningastefnunefnd Seðlabankans voru sammála um að halda stýrivöxtum óbreyttum við síðustu vaxtaákvörðun bankans fyrir tveimur vikum síðan.

Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar. Þar segir að rætt hafi verið um hvort hækka ætti vextina, lækka þá eða halda þeim óbreyttum. Helstu rök fyrir því að halda vöxtum óbreyttum, þrátt fyrir að verðbólga og verðbólguvæntingar væru enn yfir markmiði, voru þau að nýlegar hagtölur bentu til þess að hagvöxtur í fyrra hafi verið minni en áður var talið. Þá benti uppfærð spá Peningamála til þess að horfur fyrir þetta ár hafi einnig versnað.

„Nefndarmenn voru sammála um að laust taumhald peningastefnunnar á undanförnum misserum hefði stutt við efnahagsbatann," segir í fundargerðinni.

„Þeir töldu einnig að hækkun vaxta undanfarið 1½ ár og hjöðnun verðbólgu hefði haft í för með sér að dregið hefði umtalsvert úr slaka peningastefnunnar. Eftir því sem slakinn hyrfi úr þjóðarbúskapnum yrði einnig nauðsynlegt að slaki peningastefnunnar hverfi. Að hve miklu leyti aðlögunin ætti sér stað með hærri nafnvöxtum Seðlabankans færi eftir framvindu verðbólgunnar, sem myndi ráðast að miklu leyti af þróun gengis krónunnar og launaákvörðunum á komandi misserum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×