Viðskipti innlent

Ráðherra um Íbúðalánasjóð: Verið að vinna að lausn vandans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra.
Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Katrínu Júlíusdóttur fjármálaráðherra hvaða áhrif staða Íbúðalánasjóðs hefði á stöðu ríkissjóðs. Unnur Brá sagði að vanda Íbúðalánasjóðs hafi ekki verið svarað í fjárlagafrumvarpi sem samþykkt var í lok síðasta árs og menn hafi ekki horfst í augu við þann vanda sem Íbúðalánasjóður stendur í. Lánshæfismatsfyrirtækið Moodys setti Íbúðalánasjóðs í ruslflokk í gær.

Katrín Júlíusdóttir svaraði því til að þótt Íbúðalánasjóður hefði verið settur í ruslflokk teldi Moodys horfurnar vera stöðugar en ekki neikvæðar. Þetta hefði verið skýrt með því að staða ríkissjóðs hefði verið að batna. „Staðreyndin er líka þessi, að það lá algerlega fyrir við fjárlagarumæðuna hér í haust að við vissum að Íbúðalánasjóður væri í vanda en við fullyrtum líka að ríkissjóður myndi standa að baki Íbúðalánasjóði. Við erum farin af stað með margvíslegar aðgerðir - það er búið að fara af stað með margvíslegar aðgerðir. Það er heill vinnuhópur í gangi til þess að taka á málefnum Íbúðalánasjóðs. Það er búið að veita heimildir til innspýtingar í eiginfjárhlutfallið og það skiptir allt máli. Þannig að við erum á réttri leið með Íbúðalánasjóð," sagði Katrín Júlíusdóttir í svari við óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×