Viðskipti innlent

FT segir Bjarna Benediktsson hóta erlendum vogunarsjóðum eignamissi

Viðskiptablaðið Financial Times (FT) sá ástæðu til að nefna ummæli Bjarna Benediktsson formanns Sjálfstæðisflokksins um að erlendir vogunarsjóðir yrðu neyddir til að afskrifa eigur sínar á Íslandi í frétt um óskylt efni.

Fréttin sem vitnað var til ummælana í fjallaði aðallega um nýlegt skuldafjárútboð Arion banka á alþjóða fjármálamarkaði. Financial Times segir réttilega að útboðið hafi verið merkur áfangi í endurreisn á trausti á íslenska bankakerfið.

Eins og fram hefur komið í fréttum tókst Arion banka að selja skuldabréf í norskum krónum en upphæð bréfanna samsvarar rúmlega 11 milljörðum króna. Um er að ræða fyrsta erlenda útboðið sinnar tegundar, þ.e. íslensks fjármálafyrirtækis, á alþjóðamarkaði frá því fyrir hrunið haustið 2008. Það voru um 60 fjárfestar á Norðurlöndunum, í Evrópu og Asíu sem keyptu skuldabréfin.

Fram kemur í frétt Financial Times að gjaldeyrishöftin standi í veginum fyrir erlendri fjárfestingu á Íslandi. Og blaðið telur ástæðu til að vitna til nýlegra orða formanns Sjálfstæðisflokksins sem Financial Times segir að hafi hótað erlendum kröfuhöfum því að skerða íslenskar eigur þeirra.

Við þetta má bæta að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina var samþykkt ályktun þar sem segir að afnema beri forréttindi erlendra kröfuhafa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×