Viðskipti innlent

Tillögur að framtíð Íbúðalánasjóðs liggja fyrir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður Erlingsson er framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Sigurður Erlingsson er framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Tillögur að framtíðarskipulagi Íbúðalánasjóðs liggja fyrir í megindráttum og hafa verið kynntar viðeigandi aðilum. Þær verða hins vegar ekki kynntar opinberlega að svo stöddu. Þetta segir í tilkynningu Íbúðalánasjóðs þar sem tekið er undir þau orð sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri lét falla á fundi efnahags- og viðskiptanefndar um að viðskiptalíkan Íbúðalánasjóðs gangi ekki upp í núverandi umhverfi.

„Stjórn og stjórnendur Íbúðalánasjóðs taka undir þessi orð seðlabankastjórans, enda hafa þeir ekki farið í grafgötur með þá skoðun sína. Um nokkra hríð hefur verið unnið skipulega að því að móta þann grunn sem skynsamlegt er að byggja starfsemi Íbúðalánasjóðs á," segir í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

Þá segir að tillögur að framtíðarskipulagi sjóðsins liggi nú þegar fyrir í megindráttum og hafi verið kynntar viðeigandi aðilum. „Stjórnendur sjóðsins geta þó ekki kynnt þessar tillögur opinberlega, fyrr en helstu eftirlits- og umsagnaraðilar sjóðsins ná að fjalla ítarlega um þær. Einn þessara aðila er stjórnskipuð nefnd sem nú skoðar málefni sjóðsins. Þeirri nefnd er ætlað að skila tillögum um framtíð sjóðsins í næsta mánuði," segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×