Viðskipti innlent

Valitor hlaut tvenn verðlaun á hátíð í London

Starfsfólkið að baki verðlaunum Valitor.
Starfsfólkið að baki verðlaunum Valitor.
Valitor hlaut tvöfalda viðurkenningu fyrir framsæknar lausnir á alþjóðlegu verðlaunahátíðinni Card and Payment Awards sem fram fór í London í síðustu viku.

Í tilkynningu segir að hátíðin sé hin stærsta sinnar tegundar í Evrópu og njóti virðingar meðal fagfólks í fjármálageiranum.

Alls voru um 1.500 gestir á hátíðinni en á henni voru verðlaunaðir þeir aðilar og þau verkefni sem þykja hafa skarað fram úr á Bretlandi og Írlandi síðastliðið ár á sviði korta- og greiðslulausna, en sérstök áhersla er lögð á snjalla útfærslu hugmynda og nýsköpun.

Útgáfuverkefni Valitor voru tilnefnd í tveimur flokkum, Corporate Pay fyrir bestu fyrirtækjalausnina og Citizen Card fyrir besta nýja verkefnið á sviði fyrirframgreiddra korta. Niðurstaðan varð sú að Valitor sigraði í báðum þessum flokkum.

Að mati óháðra sérfræðinga bar CitizenCard af sem besta nýjungin á sínu sviði og Corporate Pay þótti skara fram úr á sviði fyrirtækjalausna en um er að ræða sýndarlausn þar sem Valitor er bæði útgefandi og vinnsluaðili Visa korta.

„Þetta er frábær árangur hjá okkar fólki. Tuttugu sérfræðingar Valitor hafa unnið að þessum verkefnum undanfarin þrjú ár í sérstöku þróunar- og markaðsteymi og viðtökur markaðarins við afurðunum hafa verið framar okkar vonum," segir Viðar Þorkelsson forstjóri Valitor í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×