Viðskipti innlent

Ferðamönnum fjölgaði mest á Íslandi af Evrópulöndum

Ísland er það land í Evrópu þar sem ferðamönnum fjölgaði langmest hlutfallslega séð á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Evrópska ferðamálaráðsins (ETC) um gengi ferðaþjónustunnar í fyrra í Evrópu og horfurnar framundan.

Á Ísland fjölgaði ferðamönnum frá fyrra ári um tæp 20%. Næst á eftir kemur Litáen með 12% fjölgun og síðan Rúmenía með 10% fjölgun ferðamanna. Stærri áfangastaðir áttu einnig góðu gengi að fagna. Þannig fjölgaði erlendum ferðamönnum í Þýskalandi um 8%, um 5% á Spáni og 5% í Austurríki.

Almennt séð átti ferðaþjónusta í Evrópu góðu gengi að fagna í fyrra og fjölgaði komum erlendra ferðamanna um 4%, sem kemur í kjölfar 7% fjölgunar árið 2011. Eftirspurn frá fjærmörkuðum hélst áfram góð og fleiri Evrópubúar ferðuðust einnig á milli landa innan álfunnar.

Þannig er ferðaþjónustan ein fárra atvinnugreina sem sýnir vöxt í álfunni og leggur þannig lóð sitt á vogarskálina við að létta undir í því erfiða efnahagsástandi sem mörg lönd glíma við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×