Viðskipti innlent

Rekstrarkostnaður bankanna allt að fjórfalt hærri en hjá erlendum bönkum

Rekstrarkostnaður stóru bankanna þriggja er verulega hærri en sambærilegra banka á Norðurlöndunum eða í Evrópu. Sem hlutfall af eignum er kostnaðurinn allt að fjórfalt hærri hjá íslensku bönkunum.

Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um fjármálafyrirtæki hérlendis. Þar segir að rekstrarkostnaður bankanna þriggja hafi numið 2,3% af eignum þeirra árið 2011.

Til samanburðar kemur fram að í fyrra var rekstrarkostnaður minni banka á Norðurlöndunum og evrópskra banka sem hlutfall af eignum á bilinu 0,6 til 1,5%. Þarna er um allt að fjórfaldan mun að ræða ef tekið er lægsta hlutfallið erlendis. En jafnvel í samanburði við dýrustu bankana erlendis eru íslensku bankarnir samt 50% óhagkvæmari í rekstri.

Til að standa undir þessum kostnaði þarf vaxta- og þóknunartekjur. Þær námu samtals 108 milljörðum kr. árið 2011. Í skýrslunni kemur fram að þessar tekjur íslensku bankanna séu mun hærri en erlendra banka. Raunar eru þær þrefalt hærri á Íslandi en í Danmörku. Á Íslandi nema tekjurnar 3% af eignum, í Danmörku er hlutfallið innan við 1%.

Í skýrslunni segir að vaxtamunur bankanna sé því hár í alþjóðlegum samanburði og leggst þungt á heimili og fyrirtæki í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×