Viðskipti innlent

Ætlar að taka yfir eignarhlut Franz í Heklu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þeir Friðbert Friðbertsson og Franz Jezorski keyptu Heklu af Arion árið 2011.
Þeir Friðbert Friðbertsson og Franz Jezorski keyptu Heklu af Arion árið 2011.
Viðræður standa nú yfir um að Friðbert Friðbertsson, forstjóri bílaumboðsins Heklu, kaupi hlut Franz Jezorskis í fyrirtækinu. Samkvæmt heimildum Vísis eru þessar umleitanir fremur skammt á veg komnar og gætu liðið að minnsta kosti nokkrar vikur þangað til að ferlinu verður lokið.

Þeir Friðbert og Franz keyptu bílaumboðið af Arion banka í byrjun árs 2011 og hafa því átt það saman í um það bil tvö ár. Nýi Kaupþing, sem varð síðar Arion, tók fyrirtækið yfir af þáverandi eigendum með nauðasamningum árið 2009. Þá hafði fyrirtækið átt í miklum rekstrarerfiðleikum vegna hruns krónunnar sem leiddi til mikils samdráttar í bílasölu.

Hekla er eitt rótgrónasta bílaumboð landsins, stofnað árið 1933 og lengst af í eigu sömu fjölskyldu, Sigfúsar Bjarnasonar og barna hans, allt til ársins 2002. Fyrirtækið er með umboð fyrir Mitsubishi, Volkswagen, Skoda og Audi, svo dæmi séu nefnd.

Vísir náði tali af Friðbert Friðbertssyni vegna kaupanna en hann vildi ekkert segja um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×