Viðskipti innlent

Heildaraflinn dróst saman um 8% milli ára í janúar

Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum janúarmánuði, metinn á föstu verði, var 8% minni en í janúar í fyrra. Munar þar mest um samdrátt í loðnuveiðum.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að aflinn nam alls 147.314 tonnum í janúar 2013 samanborið við 198.290 tonn í janúar 2012.

Botnfiskafli jókst um rúm 4.800 tonn frá janúar 2012 og nam tæpum 35.500 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 20.200 tonn, sem er aukning um rúm 3.500 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn nam tæpum 4.700 tonnum sem er um 1.200 tonnum minni afli en í janúar 2012. Karfaaflinn jókst um tæp 1.300 tonn samanborið við janúar 2012 og nam rúmum 4.300 tonnum. Um 3.100 tonn veiddust af ufsa sem er um 500 tonnum meiri afli en í janúar 2012.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 109.900 tonnum, sem er rúmlega 56.100 tonnum minni afli en í janúar 2012. Samdráttinn má rekja til þess að loðnuafli dróst saman um tæp 55.400 tonn frá janúar 2012 en 109.600 tonn veiddust af loðnu í janúar 2013. Síldaraflinn nam 204 tonnum en var 70 tonn árið áður. Nær enginn annar uppsjávarafli var veiddur í janúar 2013 samanborið við rúm 900 tonn af kolmunna árið áður.

Flatfiskafli var rúm 1.500 tonn í janúar 2013 og jókst um rúm 300 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam 399 tonnum samanborið við 401 tonna afla í janúar 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×