Viðskipti innlent

Á áratug fóru 840 íbúðir á Suðurnesjunum undir hamarinn

Alls voru 840 íbúðir seldar nauðungarsölu á Suðurnesjunum á árunum 2001 til 2011. Þetta kemur fram í rannsókn sem gerð var á vegum velferðarráðuneytisins.

Þar kemur fram að hlutfall nauðungarsölumála sem lauk með sölu eignar fór á fyrri hluta tímabilsins hæst í 10,5% á ári, en stighækkaði árin 2008 til 2011, úr 5,8% árið 2007 í tæp 43% árið 2011. Rúmlega 70% af þessum íbúðum voru í eigu einstaklinga.

Fram kemur að á öllu tímabilinu var áberandi að fólk missir húsnæði sitt á nauðungarsölu einu til þremur árum eftir íbúðarkaupin.

Fjallað er um málið á vefsíðu stjórnarráðsins. Þar segir að meðalaldur þeirra einstaklinga sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu var á öllu tímabilinu um 40 ár og hefur farið hækkandi, úr 36 árum 2009 í 43 ár 2011.

Fjölskyldugerð þeirra sem misstu íbúðir sínar á tímabilinu skiptist þannig að í um 40% tilvika voru eigendur í sambúð eða hjónabandi og í tæpum helmingi voru börn á heimilinu, alls 560 börn. Í rúmlega fimmtungi tilvika áttu börn lögheimili í hinni seldu íbúð.

Eigendur voru í 45,2% tilvika með lögheimili í hinni nauðungarseldu íbúð á degi nauðungarsölunnar. Þegar lögaðili er eigandi húsnæðis sem selt er, er líklegast að leigutaki hafi misst húsnæði sitt við sölu. Ekki reyndist unnt að fá upplýsingar um stöðu þess hóps.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×