Viðskipti innlent

Vanskil minnka hjá ÍLS sjötta mánuðinn í röð

Í lok janúar s.l. nam fjárhæð lána einstaklinga í vanskilum tæpum 4,9 milljörðum króna hjá Íbúðalánasjóði (ÍLS). Þetta samsvarar 0,1% lækkun frá fyrra mánuði.

Í mánaðarskýrslu sjóðsins segir að hlutfall lána í vanskilum einstaklinga hafi því lækkað sjötta mánuðinn í röð frá því að vanskil í lánasafni Íbúðalánasjóðs náðu hámarki í júlí síðastliðnum. Þetta er ánægjuleg þróun og vonandi vísbending um það sem koma skal.

Heimili í vanskilum eru 4.752 og þar af eru 610 heimili með frystingu á lánum sínum. Alls voru því 9,2% þeirra heimila sem eru með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok janúar s.l. Það er 0,2% lægra hlutfall heimila en í lok janúar í fyrra.

Í skýrslunni kemur fram að heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu 960 milljónum króna í janúar en þar af voru um 890 milljónir króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í janúar í fyrra um 1,1 milljarði króna. Meðalfjárhæð almennra lána var 8,9 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×