Viðskipti innlent

Fitch: Skuldir Íslands 70 prósent af landsframleiðslu árið 2020

Magnús Halldórsson skrifar
Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch telur að opinberar skuldir á Íslandi verði komnar niður í 70 prósent af landsframleiðslu árið 2020, en þær eru nú ríflega 90 prósent af árlegri landsframleiðslu, eða sem nemur ríflega 1.500 milljörðum króna.

Maastricht-skilyrðin svonefndu, sem þjóðir þurfa að uppfylla til þess að geta orðið hluti af myntbandalagi Evrópu og tekið upp evru, gera ráð fyrir því að opinberar skuldir séu ekki hærri en 60 prósent af árlegri landsframleiðslu.

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, segir að Evrópusambandið sé með þessi skilyrði til endurskoðunar þessa dagana, ekki síst vegna þess að fáar Evrópuþjóðir uppfylla fyrrnefnd skilyrði um að opinberar skuldir séu ekki hærri en sem nemur 60 prósent af landsframleiðslu. „Þessi mál eru öll til endurskoðunar þessa dagana, í ljósi þessi hvernig staðan er í Evrópu," segir Eiríkur Bergmann. Ekki liggur fyrir enn hver lendingin í þessari endurskoðun verður, en ljóst þykir þó að hækka þurfi skuldaþakið, samhliða samræmingu á regluverki um ríkisfjármál Evrópusambandsríkja.

Hann segir enn fremur að skuldastaða Íslands sé augljóslega eitt af því sem semja þurfi um í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þegar kemur að mögulegri inngöngu í myntbandalagið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×