Viðskipti innlent

Hægari hagvöxtur en áður var talið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Nýjustu hagvísar benda til þess að hagvöxtur í fyrra hafi verið heldur minni en áður hafði verið talið. Þetta kemur fram í peningamálum Seðlabankans sem kom út í dag.

Endurskoðuð spá Peningamála gerir því ráð fyrir að hagvöxtur í fyrra hafi verið 2,2% í stað 2,5% í nóvemberspá bankans. Horfur fyrir þetta ár hafa að sama skapi versnað og er nú spáð 2,1% hagvexti í ár í stað tæplega 3% í nóvember. Skýrast lakari horfur í ár einkum af hægari vexti fjárfestingar í orkufrekum iðnaði en einnig vegur hægari vöxtur einkaneyslu nokkuð þungt.

„Í spánni er gert ráð fyrir að nokkur hluti fjárfestingar í orkufrekum iðnaði færist frá þessu ári yfir á árin 2014-15 og því hafa hagvaxtarhorfur glæðst lítillega á seinni hluta spátímans. Nú er gert ráð fyrir u.þ.b. 3¾% hagvexti að meðaltali þessi tvö ár í stað 3½% í nóvember. Eftir sem áður er landsframleiðslan á öllum spátímanum minni en í nóvemberspánni. Þótt hjöðnun atvinnuleysis hafi í meginatriðum verið í takt við fyrri spá Seðlabankans, hefur fjölgun heildarvinnustunda verið nokkru hægari en gert hafði verið ráð fyrir. Hægari efnahagsumsvif leiða til þess að heildarvinnustundum fjölgar minna og atvinnuleysi hjaðnar hægar en spáð var í nóvember," segir í spánni.

Í spá Peningamála kemur hins vegar líka fram að verðbólguhorfur hafi lítið breyst og er áfram gert ráð fyrir tiltölulega hægri hjöðnun verð­bólgu, þar sem í meginatriðum vegast á áhrif töluvert lægra gengis krónunnar og meiri slaki í þjóðarbúinu en gert var ráð fyrir í nóvember. Þótt líkur á stórfelldum áföllum eins og upplausn evrusvæðisins eða snarpri aukningu aðhalds í ríkisfjármálum í Bandaríkjunum hafi minnkað töluvert, ríkir enn mikil óvissa í alþjóðlegum efnahags­málum. Ástand á helstu útflutningsmörkuðum Íslendinga hafi versnað, einkum í Evrópu, og viðskiptakjör séu lakari en áður var reiknað með. Útflutningstekjur hafi því verið minni sem á þátt í veikara gengi krónunnar að undanförnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×