Viðskipti innlent

Rekstur bankanna kostar á við tvo Landspítala

Rekstrarkostnaður bankanna á föstu verði hefur aukist verulega á hverju ári frá hruni. Rekstur 14 lánastofnana árið 2011 kostaði 30% meira á föstu verði en rekstur 32 lánastofnana fyrir áratug síðan og kostnaðurinn jafnast á við tvo Landsspítala í dag.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um fjármálafyrirtæki sem birt er á vefsíðu þess. Að mati eftirlitsins gefur þetta til kynna að samkeppnisaðhaldi í bankaþjónustu sé áfátt því samkeppni hvetur fyrirtæki til hagræðingar. Viðskiptavinir bankanna greiða rekstrarkostnaðinn svo dýru verði með óhagstæðum viðskiptakjörum.

Í skýrslunni segir að sá vandi sem endurspeglast í háum rekstrarkostnaði bankanna og þar með háum vaxtakostnaði heimila og fyrirtækja er mikill og ekki auðleystur. Einn möguleiki sem oft er nefndur í þessu sambandi er samruni tveggja af stóru bönkunum.

„Samkeppniseftirlitið hefur talað mjög skýrt um það að samrunar stærri banka séu ekki lausn á þessum vanda. Skert samkeppni sem myndi að líkindum fylgja slíkum samrunum, myndi þvert á móti skaða neytendur og samkeppnishæfni atvinnulífsins," segir í skýrslunni.

„Afstaða Samkeppniseftirlitsins til aukinnar samvinnu banka, með það að augnamiði að hagræða, hefur einnig verið skýr. Slík samvinna kemur vel til álita, en þó því aðeins að hún skerði ekki hvata banka til að keppa sín á milli þar sem samkeppni er neytendum og viðskiptavinum til góðs. Í því samhengi má benda á sátt sem Samkeppniseftirlitið gerði við Reiknistofu bankanna og eigendur hennar um starfsemi fyrirtækisins.

Aukin samkeppni er lykillinn að hagræðingu og aukinni framleiðni í bankastarfsemi á Íslandi að mati Samkeppniseftirlitsins. Samkeppni stuðlar að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta, hvetur stjórnendur til að hagræða í rekstri og leiðir til nýrra hugmynda, nýsköpunar og tækninýjunga."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×