Viðskipti innlent

Alvogen kaupir rúmenskt lyfjafyrirtæki

Hér má sjá starfsmann Labormed að störfum.
Hér má sjá starfsmann Labormed að störfum.
Lyfjafyrirtækið Alvogen hefur keypt rúmenska samheitalyfjafyrirtækið Labormed. Kaupin eru mikilvægur áfangi fyrir uppbyggingu Alvogen í Mið- og Austur Evrópu en Labormed er eitt af stærstu samheitalyfjafyrirtækjum Rúmeníu. Starfsemi Alvogen nær nú til um 25 landa og starfsmenn félagsins eru 1700, þar af 400 í Rúmeníu og 20 á Íslandi. Alvogen gefur kaupverð fyrirtækisins ekki upp.

Í fréttatilkynningu vegna kaupanna segir að með þeim sé Alvogen að styrkja starfsemi sína í Mið- og Austur Evrópu en félagið sé nú þegar meðal annars með starfsemi í Ungverjalandi, Búlgaríu, Serbíu, Úkraínu, Rússlandi, Makedoníu, Póllandi, Króatíu og í Eystrasaltsríkjunum auk Bandaríkjanna og markaða í Asíu. Höfuðstöðvar Alvogen í Austur Evrópu verða í Rúmeníu þar sem félagið mun samþætta framleiðslu, þróun og markaðsmál fyrir svæðið. Markaðssetning Labormed verður undir merkjum Alvogen.

Alvogen er með starfsemi í Kópavogi og hefur ráðið til sín rúmlega 20 starfsmenn frá árinu 2010. Félagið byggir á traustum grunni Norwich Pharmaceuticals í Bandaríkjunum sem á sér 125 ára rekstrarsögu. Utan Bandaríkjanna hefur Alvogen byggt upp starfsemi sína í Austur Evrópu og Asíu og tilkynnti nýlega um kaup á einu stærsta samheitalyfjafyrirtæki í Suður-Kóreu. Alvogen vinnur með fjölda íslenskra fyrirtækja, bæði vegna útflutnings á ýmsum vörum og eins vegna kaupa á vörum og þjónustu vegna starfsemi félagsins hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×