Viðskipti innlent

Jón Ásgeir greiðir 62 milljóna króna sekt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson var aðaleigandi Baugs.
Jón Ásgeir Jóhannesson var aðaleigandi Baugs.
Jón Ásgeir Jóhannesson var í Hæstarétti í dag dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot tengt Baugsmálinu. Hann var líka dæmdur til að greiða 62ja milljóna króna sekt í ríkissjóð vegna málsins. Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri Baugs, var dæmdur í átján mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 32ja milljóna króna sektar. Kristín Jóhannesdóttir, systir Jóns Ásgeirs, var dæmd i þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Þremenningarnir voru líka fundnir sekir um brot á skattalögum í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok árs 2011. Þegar dómur var kveðinn upp í héraði var skilorðsbundinni refsingu frestað í eitt ár.

Kröfðust frávísunar

Jón Ásgeir og Tryggvi kröfðust þess að tilteknum ákæruliðum yrði vísað frá héraðsdómi þar sem ákæran gegn þeim væri of óskýr. Þeirri kröfu var hafnað.

Þeir kröfðust líka frávísunar eða sýknu af tilteknum ákæruliðum á þeim grundvelli að með höfðun sakamáls á hendur þeim tveimur, en ekki þriðja manni sem jafnframt þeim sat í framkvæmdastjórn Baugs þegar brotin voru framin, hefði verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þeim kröfum var einnig hafnað.

Jón Ásgeir var sakfelldur fyrir fimm brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið fjármagnstekjur, tekjur af nýtingu kaupréttar, tekjur í formi launauppbótar, söluhagnað af hlutabréfum og tekjur af hlutareign, auk þess að standa ekki skil á sköttum í sömu tilvikum. Jón Ásgeir var einnig sakfelldur fyrir fjögur brot í starfsemi Baugs með því að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslur auk þess að láta hjá líða að halda eftir og skila staðgreiðslu í sömu tilvikum.

Tryggvi Jónsson sakfelldur fyrir þrjú brot

Tryggvi var sakfelldur fyrir þrjú brot vegna eigin skattskila með því að hafa vantalið launatekjur sínar, tekjur af nýtingu kaupréttar á hlutabréfum og tekjur í formi launauppbótar, auk þess að standa ekki skil á sköttum í sömu tilvikum. Tryggvi var einnig sakfelldur fyrir eitt brot í starfsemi Baugs með því að hafa skilað rangri skilagrein og vantalið launagreiðslu auk þess að láta hjá líða að halda eftir og skila staðgreiðslu í því tilviki.

Kristín einnig dæmd

Kristín var sakfelld fyrir tvö brot í starfsemi Fjárfestingafélagsins Gaums með því að hafa skilað röngum skattframtölum fyrir félagið, annars vegar þar sem vantaldar voru skattskyldar tekjur þess og hins vegar þar sem oftaldar voru til gjalda niðurfærslur tiltekinnar hlutabréfaeignar félagsins og tap þess oftalið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×