Viðskipti innlent

Gengisfall krónunnar bætir hag lífeyrissjóðanna

Gengisfall krónunnar er meðal þeirra þátta sem gerðu það að verkum að eignir lífeyrissjóðanna jukust um rúma 53 milljarða króna í desember. Þetta er mesta aukning eignanna í einum mánuði á síðustu tveimur árum.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að á síðasta ári jukust eignir sjóðanna í það heila um 294 milljarða kr. sem er rúmlega tvöföld aukningin sem varð árið 2010. Raunar segir greiningin að árið í fyrra sé fyrsta árið síðan 2006 að raunávöxtun lífeyrissjóða fer að jafnaði yfir 3,5% markið sem er tryggingafræðilegt viðmið þeirra,

Veruleg aukning varð á erlendum eignum sjóðanna í desember og jukust þær um 15 milljarða kr. Erlendar eignir námu í lok ársins 23% af 2.390 milljarða kr. heildareignum sjóðanna.

Þessi aukning í erlendum eignum er tilkomin vegna samspils hækkunar hlutabréfaverðs á erlendum mörkuðum í mánuðinum og veikingar krónunnar. Hlutabréf hækkuðu víða í verði og nam hækkunin allt að 9% á helstu hlutabréfavísitölum í Asíu en allt að 5% á helstu vísitölum í Evrópu. Þá veiktist krónan um tæp 4% í desember en veiking krónunnar eykur verðmæti erlendra eigna í krónum talið, að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×