Viðskipti innlent

Launin „út úr korti“ - málaferli beinast aðeins að Glitni

Magnús Halldórsson skrifar
Friðbert Traustason.
Friðbert Traustason.
Stjórnarmaður í Samtökum landssamtaka lífeyrissjóðanna segist telja laun slitastjórnarmanna í þrotabúum föllnu bankanna út úr öllu korti, en lífeyrissjóðir sem eru kröfuhafar í bú Glitnis teldu að slitastjórn Glitnis hefði ofgreitt sér ríflega 400 milljónir króna í laun fyrir störf sín og sinna fyrirtækja fyrir þrotabú bankans.

Fimm lífeyrissjóðir í hópi kröfuhafa Glitnis telja að lögmennirnir Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson, sem sitja í slitastjórn Glitnis, hafi oftekið sér ríflega 400 milljónir króna í laun fyrir störf sín og sinna fyrirtækja fyrir þrotabú bankans.

Hafa lífeyrissjóðirnir farið fram á það að Héraðsdómur Reykjavíkur sjái til þess að þrotabúin fái endurgreitt meintan oftekinn launakostnað. Steinunn Guðbjartsdóttir hefur neitað þessu alfarið, og sagt að launagreiðslur þrotabús Glitnis séu sambærilegar við önnur þrotabú hér á landi.

Í málinu er ekki síst horft til þess að tímakaupið sé of hátt, miðað það sem upp á lagt var samkvæmt töxtum frá Fjármálaeftirlitinu, þegar slitastjórnirnar voru skipaðar.

Friðbert Traustason, stjórnarmaður og í Landssamtökum lífeyrissjóða og formaður stjórnar Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir að launamálin hafi ekki verið rædd á vettvangi Landssamtaka lífeyrissjóða, en að það sé hans skoðun að launin séu alltof há.

„Ég skil ekki þessa gjaldtöku, og eins og þetta virðist vera þá er þetta út úr öllu korti, hvað þeir [lögmennirnir] eru að marka krókinn þarna," segir Friðbert.

Kröfuhafar Kaupþings og LBI, gamla Landsbankans, hafa engar athugasemdir gert við launakostnað hjá slitastjórnum bankanna, og beinast því málaferli lífeyrissjóðanna fimm eingöngu að slitastjórn Glitnis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×