Viðskipti innlent

Innlán heimilanna lækkuðu um 5 milljarða í desember

Innlán heimilanna hjá innlánsstofnunum lækkuðu um 5,0 milljarða kr. í desember síðastliðnum. Er þetta öllu meiri lækkun í einum mánuði en var annars á síðastliðnu ári, en allt árið í fyrra lækkuðu innlán um 17,7 milljarða kr.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að heimilin áttu í lok árs ríflega 600 milljarða kr. í innlánum hjá innlánsstofnunum og hefur sú fjárhæð ekki verið lægri frá hruni bankakerfisins árið 2008.

Hæst fór staða innlána heimilanna í 794,7 milljarða kr. í júní 2009 og hefur staðan því lækkað um 194,7 milljarða kr. síðan eða um 24,5%. Að raunvirði er lækkunin meiri. Kemur þetta fram í gögnum sem Seðlabankinn hefur nýlega birt.

Samdrátt í innlánum heimila frá 2009 má m.a. rekja til kaupmáttarrýrnunar fram að miðju ári 2011 og neikvæðrar raunávöxtunar innlánsreikninga sem var um tíma eftir hrun, og reikna má með að hafi hvatt heimilin til að draga úr innlánum sínum og fara með í neyslu.

Lækkun innlána hefur sennilega einnig farið í niðurgreiðslu skulda, fjárfestingar í íbúðarhúsnæði og að einhverju marki til tilfærslu fjármagns í sjóði þar sem líklegra er að ávöxtun verði meiri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×