Handbolti

Danir í sömu stöðu og Íslendingar á ÓL í London

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Átta liða úrslit HM í handbolta á Spáni fara fram í dag og verða allir leikirnir sýndir á sjónvarpsstöðvum Stöðvar 2 Sport. Danir, Króatar og Slóvenar mæta öll ósigruð inn í átta liða úrslitin en þessi þrjú lið hafa unnið sex fyrstu leiki sína á mótinu.

Danir eru í sömu stöðu og Íslendingar á Ólympíuleikunum í London fyrir fimm mánuðum. Danir hafa spilað frábærlega á mótinu, eru búnir að vinna alla leiki sína og mæta Ungverjum í átta liða úrslitum.

Ísland var búið að vinna fimm fyrstu leiki sína á ÓL í London þegar liðið tapaði 31-32 á móti Ungverjum í tvíframlengdum leik í átta liða úrslitunum í ágúst. Ungverjar jöfnuðu leikinn bæði í lok venjulegs leiktíma sem og í lok fyrri framlengingar. Stórskyttan Laszlo Nagy skoraði fjögur síðustu mörk Ungverja í leiknum og sá til þess að hugsanlegt draumamót íslenska liðsins fékk martraðarendi.

Íslandsbanar Frakka taka á móti ósigruðu liði Króata á meðan að Þjóðverjar reyna sig á móti gestgjöfum Spánverja. Rússar spila síðan við Slóvena í fyrsta leik dagsins en margir sáu íslenska liðið fyrir sér í þessum leik hefði liðinu tekist að vinna Rússa í fyrsta leik mótsins.

Leikirnir í átta liða úrslitunum í dag:

17:15 Rússland – Slóvenía [Stöð 2 Sport 3]

18.00 Þýskaland - Spánn [Stöð 2 Sport HD]

19:45 Danmörk - Ungverjaland [Stöð 2 Sport 3]

20:30 Frakkland – Króatía [Stöð 2 Sport HD]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×