Handbolti

Spánverjar bundu enda á titilvonir Þjóðverja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alberto Enterrios í baráttunni í kvöld.
Alberto Enterrios í baráttunni í kvöld. Nordic Photos / AFP
Gestgjafar Spánar eru komnir í undanúrslit á HM í handbolta eftir sigur á Þýskalandi í dag, 28-24.

Þar með eru vonir Þjóðverja um titil úr sögunni en bjartsýnustu stuðningsmenn Þýskalands voru byrjaðir að vona það besta eftir glæsilegan sigur liðsins á Frökkum í lokaumferð riðlakeppninnar.

Jafnræði var með liðunum framan af í leiknum og Þýskaland var með tveggja marka forystu í hálfleik, 14-12.

Liðin skiptust áfram á að vera í forystu þar til rúmar tíu mínútur voru til leiksloka og staðan jöfn, 21-21. Þá komu fimm spænsk mörk í röð og náðu Þjóðverjar ekki að brúa bilið eftir það.

Vörn Spánverja skellti í lás á þessum mínútum og þeir þýsku létu dómgæsluna fara í taugarnar á sér. Línumaðurinn Julen Aguinagalde fór svo mikinn í sókninni en hann var markahæstur Spánverja í dag með sjö mörk.

Silvio Heinevetter átti fínan leik í marki Þjóðverja og þá dreifðist markaskorun á milli margra í liðinu. Markahæstir var Sven Sören Christophersen með sex mörk.

Þjóðverjar eru því úr leik en Spánn leikur til undanúrslita gegn Slóveníu á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×