Viðskipti innlent

Fyrsti tunnuþroskaði bjórinn framleiddur á Íslandi

„Við útveguðum okkur notaðar koníakstunnir frá Frakklandi sem við lögðum bjórinn í," segir Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá Borg.

Borg sendir frá sér í dag þorrabjór sem kallast Surtur 8.1 og hefur hann legið í hálft ár í frönsku koníakstunnunum. Samkvæmt Borg mun þetta vera fyrsti tunnuþroskaði íslenski bjórinn en slíkir bjórar eru verulega eftirsóttir meðal erlendra bjórgæðinga.

Um þúsund flöskur fara í sölu í dag. „Við eigum bara tvær tunnur, þess vegna eru þeir ekki fleiri," útskýrir Valgeir.

„Bjórinn þroskast í þessum koníakstunnum í sex mánuði þar sem hann þéttist og drekkur í sig koníak úr viðnum og karaktereinkenni eikarinnar í tunnunni. Við þetta hækkar alkóhólmagn bjórsins um heilt prósent. Þessi útgáfa tekur því við keflinu af Surti 8, sem við gerðum í fyrra, sem sterkasti bjór Íslandssögunnar," segir Valgeir en Surtur 8.1 er 13% í styrk.

Hér fyrir ofan má sjá myndband þar sem Valgeir og kollegi hans Sturlaugur Jón Björnsson fara nánar yfir framleiðsluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×