Viðskipti innlent

Telur auðlegðarskattinn fara gegn stjórnarskrá

Magnús Halldórsson skrifar
Garðar Valdimarsson hrl. segir auðlegðarskattinn, sem lagður er á hreina eign einstaklinga yfir 75 milljónum og hjóna yfir 100 milljónum, fara gegn stjórnarskrá, einkum ákvæðum um eignarrétt. Hann telur Hæstarétt hafa gefið leiðgsögn í þessum efnum í dómsmáli árið 1958, þar sem deilt var um stóreignaskattinn svonefnda.

Þetta kom fram í erindi sem Garðar hélt á skattadegi Deloitte á Grand Hóteli í gær.

Auðlegðarskatturinn nemur 1,5 prósentum á hreina eign umfram 75 milljónir hjá einstaklingum, og tveimur prósentum á eign umfram 150 milljónir. Hjá hjónum nemur hann 1,5 prósentum á hreina eign umfram 100 milljónir og tveimur prósentum á hreina eign umfram 200 milljónir. Til viðbótar er síðan auðlegðarskattur sem lagður er á hlutafjáreign í fyrirtækjum, en þar er miðað við eignarhluti sem hlutfall af eigin fé.

Garðar sagði í erindi sínu að reglurnar um auðlegðarskattinn, sem lagður var á árið 2009 og þá tímabundið, væru þær sömu eða sambærilegar þeim, sem Hæstiréttur hefði fjallað um í málinu árið 1958, og dæmt ósamræmanlegar stjórnarskrá.

Ríflega 5.200 einstaklingar greiddu auðlegðarskatt 2011, samtals 8,3 milljarða króna í ríkissjóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×