Handbolti

HM 2013: Mikil endurnýjum hjá Rússum

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Róbert Gunnarsson verður í lykilhluverki í sóknarleik íslenska landsliðsins í handbolta á heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni. Línumaðurinn, sem leikur með PSG í Frakklandi, er á meðal þeirra reyndustu í leikmannahóp Íslands og hann telur að mótherji Íslands í fyrsta leiknum verði hrikalega erfiður.

„Það er mikil endurnýjun hjá Rússum hvað varðar leikskipulag og það kemur með nýjum þjálfara Oleg Kuleshov. Ég hef reyndar spilað með honum en hann var liðsfélagi okkar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Þýskalandi. Hann er að uppfæra leikstíl þeirra og Rússar eru „evrópskari" og nútímalegri en áður. Það er jákvætt fyrir Rússa að fá Kuleshov og ég held þeir séu mun erfiðari mótherjar í dag en áður.

Það væri óskandi að við næðum svipuðum úrslitum og við náðum gegn þeim á EM í Austurríki. Mig minnir að í þeim leik hafi allt verið búið hjá þeim á því móti á meðan það var allt undir hjá okkur. Það er allt undir hjá báðum liðum í leiknum og þetta verður hörkuleikur.

Hvernig metur þú stöðuna á íslenska liðinu?

„Bara eins og fyrir öll mót, við erum með þessa ungu stráka sem eru að koma inn. Þeir eru virkilega góð viðbót og það er ekki eins mikið stökk í endurnýjun og oft áður. Það vantar marga menn sem hafa verið með okkur í gegnum síðustu keppnir, og auðvitað væri gott að hafa þá með. Við förum bara í þetta verkefni með þann mannskap sem við höfum og við höfum trú á okkar liði."

Varnarleikurinn gæti verið stórt spurningamerki hjá ykkur; það eru stórir póstar farnir úr vörninni.

„Við erum allavega fínir með fyrstu sjö leikmennina í vörninni en það munar að sjálfsögðu um það að Alexander Petersson hefur verið að skipta varnarhlutverkinu með Ásgeiri Erni Hallgrímssyni. Og Diddi (Ingimundur Ingimundarson), Viggi (Vignir Svavarsson) og Sverre (Jakobsson) hafa verið að skipta með sér „þristinum" . Það munar miklu um það upp á hvíldina og það verður forvitnilegt að sjá hvernig við rúllum þessu. Við erum með góða menn til að byrja þetta og vörnin er fín – en vonandi verður úthaldið í lagi," sagði Róbert Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×