Handbolti

Aron: Gott að komast á blað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins, var vitanlega ánægður með sigur sinna manna á Síle í dag.

Ísland vann stórsigur, 38-21, og fékk því sín fyrstu stig í mótinu þar sem að liðið tapaði fyrir Rússum í gær.

„Það er léttir að hafa unnið og gott að hafa komist á blað. Þetta var sannfærandi sigur," sagði Aron í viðtali við Arnar Björnsson eftir leikinn.

„Það var líka gott að fá menn inn í mótið sem áttu ekki sinn besta dag í gær. Svo var hugsunin líka að nota sem flesta leikmenn," bætti hann við.

Ísland náði að síga fram úr á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks og eftir það var sigurinn aldrei í hættu.

„Við vorum nokkuð grimmir í upphafi leiks en eftir að við fórum aftur í 6-0 vörn þá gekk þetta betur og við vorum heilt yfir þéttari."

„Björgvin Páll féll svo niður þrátt fyrir að hafa byrjað vel og þá kom Aron Rafn sterkur inn."

Hann sagði ósamræmi í dómgæslunni í dag. „Mér fannst við oft fara út af fyrir litlar sakir," sagði hann.

„En þetta var fínn leikur og öruggur sigur. Næsti leikur verður erfiður enda Makedónía með sterka og hættulega einstaklinga. Við þurfum að skoða þá vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×