Handbolti

Slóvenía og Króatía áfram með fullt hús eftir örugga sigra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Slóvenía og Króatía unnu bæði leiki sína á HM í handbolta í dag og hafa þar með fullt hús eftir fyrstu tvær umferðirnar í sínum riðlum. Slóvenar unnu sjö marka sigur á Suður-Kóreubúum en Króatar unnu ellefu marka sigur á Alsír.

Króatía er með fullt hús í D-riðli eftir ellefu marka sigur á Alsír, 16-8. Króatar voru í smá vandræðum í fyrri hálfleiknum en keyrðu yfir Alsír-liðið í þeim síðari. Króatía var 15-12 yfir í hálfeik en vann seinni hálfleikinn 16-8.

Ivan Cupic skoraði átta mörk fyrir Króatíu og þeir Marko Kopljar og Drago Vukovic voru báðir með fjögur mörk. Hichem Daoud skoraði mest fyrir Alsír eða sex mörk.

Slóvenar unnu sjö marka sigur á Suður-Kóreu, 34-27, í fyrsta leik dagsins í C-riðli í Zaragoza. Slóvenar hafa unnið tvo fyrstu leiki sína á mótinu en þetta var annað tap Kóreumanna því þeir töpuðu líka á móti Serbum á laugardaginn.

Slóvenar skoruðu sex fyrstu mörk leiksins en voru samt bara með eins marks forskot í hálfleik, 14-13. Leikurinn hélst jafn fram á 48. mínútu þegar Slóvenar skoruðu fjögur mörk í röð og komust í 28-22. Sigur þeirra var ekki í mikilli hættu eftir það.

Dragan Gajic skoraði 11 mörk fyrir Slóvena og Gorazd Skof varði 19 skot í markinu. Jeong Yik-Yeong og Kim Se-Ho voru markahæstir hjá Suður-Kóreu með sex mörk hvor. Jeong Yik-Yeong var einnig með 9 stoðsendingar í þessum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×