Handbolti

Guðjón Valur: Makedóníumenn hafa verið smá basli í sínum leikjum

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
„Makedóníumenn hafa verið smá basli í sínum leikjum en maður veit ekki hvort þeir hafa ekki verið nógu einbeittir. Þetta er lið sem við þekkjum vel og höfum leikið oft gegn þeim síðustu ár," segir landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson en íslenska handboltalandsliðið mætir Makedóníu í þriðja leiknum í B-riðli heimsmeistaramótsins síðdegis í Sevilla á Spáni.

Varnarleikur íslenska liðsins verður aðalvopnið gegn Makedóníu og leikmenn liðsins voru á löngum fundi í gær þar sem að farið yfir stöðuna. Guðjón telur það ekki líklegt til árangurs að taka einn besta handboltamann heims, Kiril Lazarov, úr umferð.

„Við leggjum upp með þá vörn sem við erum vanir að nota. Það hefur kosti og galla ef við ætlum að taka Kiril Lazarov sérstaklega út úr þeirra sóknarleik. Þá bjóðum við upp á meira pláss fyrir góðan miðjumann sem er góður einn á móti einum, og þeir eru með hálfgerðan ísskáp á línunni. Við verðum að standa vörnina þétt og „djöflast" aðeins í Lazarov og gera hann þreyttann. Það er ekki auðvelt að bera uppi leik liðsins í 60 mínútur og hvað þá þegar komið er í þriðja leik. Við bregðum ekki útaf okkar leikskipulagi – við sjáum bara til hvernig þeim tekst að leysa okkar leik , áður en við förum í einhverjar kúnstir eða eitthvað sem við erum ekki vanir."

Guðjón telur að Ísland eigi ágæta möguleika á að gera góða hluti á þessu heimsmeistaramóti.

„Það var sárt að tapa á móti Rússum og komum sterkir til baka gegn Síle þótt við ætlum ekki að lesa of mikið í þann leik. Við erum í tiltölulega opnum riðli og með sigri gegn Makedóníu erum við í góðri stöðu. Við setjum því alla okkar krafta í að vinna Makedóníu og tökum síðan stöðuna eftir það."

Guðjón Valur fékk óvenjulega mikla hvíld í leiknum gegn Síle þar sem að Stefán Rafn Sigurmannsson fékk að spreyta sig í vinstra horninu. Guðjón er ekki ósáttur við slíkar ákvarðanir hjá Aroni Kristjánssyni þjálfara liðsins. „Ég spila bara þegar mér er sagt að spila og sest þegar mér er sagt að sitja, og þigg þær mínútur sem ég fæ og gerir sem best úr þeim. Ég er vanur að spila mikið og hef gaman að því – en það þurfa menn að koma inn í og læra að taka ábyrgð og spila á stórmóti – það er svolítið annað en að spila æfingaleiki," sagði Guðjón Valur Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×