Handbolti

Ungverjar unnu 30 marka sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Ungverjaland er með fullt hús eftir tvær umferðir í D-riðli á HM í handbolta á Spáni alveg eins og Spánn og Króatía en Ungverjar unnu 30 marka stórsigur á Áströlum, 43-13, í lokaleik dagsins.

Ástralir ættu að vera orðnir vanir að tapa mjög stórt á HM í handbolta en þeir töpuðu þó "bara" með 23 marka mun, 36-13, á móti Króötum í fyrsta leik.

Ungverjar komust í 4-1, 9-2 og 18-5 og þessi leikur var því létt æfing frá byrjun. Ungverjar voru 20-6 yfir í hálfleik og voru komnir í 34-8 eftir 17 mínútna leik í seinni hálfleik. Ungverjar stálu alls 31 bolta af Áströlum í þessum leik.

Gábor Császár var með 8 mörk og 6 stoðsendingar á 29 mínútum og Szabolcs Szöllősi skoraði sjö mörk af línunni. Péter Tatai varði 17 skot í markinu eða 57 prósent skota sem á hann komu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×