Handbolti

Spánverjar jöfnuðu met Íslendinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Spánverjar fóru illa með Ástrala í dag þegar þjóðirnar mættust í þriðju umferð D-riðilsins á HM í handbolta á Spáni. Spánverjar unnu leikinn með 40 marka mun, 51-11, og er það stærsti sigurinn til þessa á heimsmeistaramótinu á Spáni til þessa.

Þetta er ennfremur metjöfnun en íslenska landsliðið vann 40 marka sigur á Ástralíu, 55-15, á HM í Portúgal árið 2003 og eru þetta nú tveir stærstu sigrarnir í sögu HM.

Spánverjar hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína á mótinu með samtals 58 marka mun en þeir hafa aðeins fengið á sig 16,3 mörk í leik í þessum þremur leikjum. Það reyndir væntanlega meira á spænska liðið í síðustu tveimur leikjumm sínum á móti Ungverjalandi og Króatíu.

Albert Rocas var markahæstur hjá Spánverjum með 9 mörk, Antonio García skoraði sjö mörk og þeir Valero Rivera og Ángel Montoro voru báðir með sex mörk. Callum Mouncey skoraði mest fyrir Ástrala eða fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×