Viðskipti innlent

Ferðamannamet í desember, 2012 stærsta ferðamannaárið

Árið 2012 var langstærsta ferðamannaár í sögu landsins, en á árinu í heild fóru 649.900 erlendir ferðamenn frá landinu um Leifsstöð. Jafngildir þetta aukningu upp á 20% á milli ára, eða sem nemur 106.100 erlendum ferðamönnum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að í desember sl. fóru 28.000 erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð, sem er aukning upp á 34% frá sama tíma árið á undan. Er hér um að ræða stærsta desembermánuð frá upphafi í fjölda þeirra, líkt og var í hverjum einasta mánuði á síðasta ári.

Meginþorri erlendra gesta sem kemur til landsins fer um Leifsstöð, eða um 96% samkvæmt mati Ferðamálastofu. Um 12.800 erlendir ferðamenn komu hingað til lands með Norrænu. Gefur Ferðamálastofa sér að bæta megi við 2% í viðbót sem koma um aðra flugvelli, þ.e. Reykjavík, Egilsstaði og Akureyri, þ.e. að því gefnu að umferð þar hafi verið svipuð og hún var 2011. Hafi svo verið raunin á síðastliðnu ári má ætla að fjöldi erlendra gesta hafi verið um 673 þúsund.

Í desember nam kortavelta útlendinga hér á landi 3,8 milljörðum kr. og jókst um 41% að nafnvirði frá sama tíma árið á undan. Sé litið á árið 2012 í heild þá nam kortavelta erlendra aðila hér á landi 75,0 milljörðum kr. og jókst um 21% að nafnvirði frá árinu 2011. Vart þarf að koma á óvart að kortavelta erlendra aðila hefur aldrei áður verið svo mikil hér á landi, enda er þessi gríðarlega aukning í takti við tölur, að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×