Handbolti

Meiri spenna í A-riðlinn - Brasilía vann Túnis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Brasilíumenn settu meiri spennu í A-riðil á HM í handbolta á Spáni eftir fimm marka sigur á Túnis, 27-22, í dag. Túnis var búið að vinna tvo leiki í röð þar á meðal óvæntan sigur á Þjóðverjum en bæði Túnis og Brasilíu eru nú með fjögur stig eftir fjóra leiki.

Túnis komst í 2-0 í upphafi leiks en eftir það voru Brasilíumenn með frumkvæðið í leiknum. Brasilía var 13-11 yfir í hálfleik og var síðan með tveggja til þriggja marka forystu í upphafi seinni hálfleiksins. Brasilía gaf ekkert eftir á lokakaflanum og vann á endanum nokkuð öruggan sigur.

Lucas Candido skoraði fimm mörk fyrir Brasilíu og þeir Fernando Pacheco, Felipe Borges og Vinicius Teixeira voru allir með fjögur mörk. Kamel Alouini skoraði mest fyrir Túnis eða sex mörk.

Brasilíumenn töpuðu með tíu mörkum í fyrsta leiknum sínum á móti Þjóðverjum og það stóra tap gæti komið í bakið á þeim enda er líklegt að úrslit í innbyrðisviðureignum ráði röð liðanna í riðlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×