Viðskipti innlent

Heildaraflinn jókst um 11,2% í fyrra miðað við árið á undan

Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum desembermánuði, metinn á föstu verði, var 2,8% minni en í desember 2011. Í fyrra jókst aflinn um 11,2% miðað við árið 2011, sé hann metinn á föstu verði.



Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að aflinn nam alls 42.833 tonnum í desember 2012 samanborið við 41.688 tonn í desember 2011.

Botnfiskafli dróst saman um rúm 1.700 tonn frá desember 2011 og nam tæpum 30.800 tonnum. Þar af var þorskaflinn tæp 16.400 tonn, sem er tæpum 900 tonnum meiri afli en á fyrra ári. Ýsuaflinn nam tæpum 2.800 tonnum sem er tæplega 1.500 tonnum minni afli en í desember 2011. Karfaaflinn dróst saman um 842 tonn samanborið við desember 2011 og nam tæpum 4.800 tonnum. Tæp 3.200 tonn veiddust af ufsa sem er 667 tonna samdráttur frá desember 2011. Annar botnfisksafli nam tæpum 3.700 tonnum og jókst um tæp 400 tonn frá fyrra ári.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 9.700 tonnum, en tæplega 7.000 tonn af uppsjávarafla veiddust í desember 2011. Tæplega 1.600 tonnum var landað af síld í desembermánuði, samanborið við tæp 6.900 tonn í desember 2011. Um 7.700 tonn veiddust af loðnu en ekkert var veitt af loðnu í desember 2011. 478 tonn veiddust af kolmunna í desember 2012 samanborið við 1 tonn árið áður.

Flatfiskaflinn var rúm 1.900 tonn í desember 2012 sem er aukning um 228 tonn frá desember árið áður. Skel- og krabbadýraafli nam 299 tonnum sem er samdráttur um 69 tonn frá desember 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×