Viðskipti innlent

Verðmæti kjölfestuhlutar í Högum hefur hækkað um sex milljarða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson leiddu þann hóp sem keypti kjölfestuhlutinn í Högum.
Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson leiddu þann hóp sem keypti kjölfestuhlutinn í Högum. Mynd/ GVA.
Ríflega sex hundruð milljóna króna viðskipti hafa verið með bréf í Högum í morgun. Þar af voru 24 milljónir bréfa seld á genginu 24,98. Þegar Hagar fóru á markað var útboðsgengið 11 - 13,5 á hlut en áður hafði kjölfestuhlutur verði seldur á genginu 10. Það er því ljóst að verðmæti félagsins hefur hækkað um 150% í verði frá því að það var sett á markað. Kjölfesturhluturinn var 34% af bréfum í félaginu sem var keyptur á 4,1 milljarð. Þar af leiðir að verðmæti kjölfestuhlutarins hefur hækkað um 6,1 milljarð.

Hagar voru stofnaðir af Jóhannesi Jónssyni og fjölskyldu hans. Arion banki eignaðist fyrirtækið í kjölfar bankahrunsins og seldi dreifðum hópi lífeyrissjóða og öðrum fjárfestum 34% hlut í Högum ásamt kauprétti að 10% viðbótarhlut í febrúar 2011. Sá hlutur var seldur á genginu 10 og hefur verðmæti hans því hækkað um 150% miðað við gengi félagsins í morgun.

Félagið sem keypti kjölfestuhlutinn heitir Búvellir slhf. og stærstu eigendurnir eru Hagamelur ehf., sem er félag í eigu Hallbjörns Karlssonar, Árna Haukssonar, Sigurbjörns Þorkelssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar, Gildi lífeyrissjóður, SÍA I og fagfjárfestasjóðurinn Stefnir ÍS-5.

Hér að neðan má sjá lista, sem fenginn er af vef Haga, yfir 20 stærstu eigendur í Högum. Listinn var birtur 2. janúar síðastliðinn.

Uppfært klukkan 11:10

Velta með bréf í Högum er núna komin upp í 725 milljónir. Hægt er að nálgast markaðsupplýsingar Vísis og Keldunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×