Viðskipti innlent

Íslandsbanki sagði innistæðu fyrir hækkunum en seldi sjálfur

Magnús Halldórsson skrifar
Sérfræðingar Íslandsbanka sögðu á lokuðum kynningafundi markaðssviðs bankans í síðustu viku, að innistæða væri fyrir hækkun hlutabréfa í íslensku kauphöllinni á næstu misserum, og þá m.a. Icelandair Group. Einnig voru nefnd félögin Hagar og Eimskipafélag Íslands. Bankinn seldi í gær bréf í Icelandair fyrir tæplega milljarð, en fjármálastjórinn, Jón Guðni Ómarsson, segir að ekki hafi verið um hagsmunaárekstra að ræða.

Miklar hækkanir hafa einkennt gang mála á hlutabréfamarkaði hér á landi á nýju ári. Þetta á ekki síst við um gengi bréfa Icelandair Group, en frá áramótum hefur gengi bréfa félagsins hækkað um tæplega 15 prósent.

Íslandsbanki hélt lokaðan fund í síðustu fyrir viðskiptavini markaðssviðs bankans, einkum stærri fjárfesta, lífeyrissjóði og félög þar á meðal. Á fundinum voru meðal annars kynnt þau sjónarmið að innistæða væri fyrir frekari hækkunum í kauphöllinni, þar á meðal á bréfum Icelandair. Í gær dró svo til tíðinda þegar Íslandsbanki seldi hluta af eign sinni í Icelandair fyrir tæplega einn milljarð króna, og á nú 7,4 prósent hlut í félaginu.

Íslandsbanki var því að segja stórum viðskiptavinum sínum að það gæti verið innistæða fyrir hækkunum á gengi bréfa í Icelandair, á sama tíma og bankinn var í þann mund að fara selja bréf sín. Jón Guðni Ómarsson segir bankann ekki hafa verið að stuðla að hækkun á gengi bréfanna, áður en þau voru seld.

„Íslandsbanki hefur ekki gert verðmöt á Ícelandair, og ekki verið með ráðgjöf um sölu eða kaup í félaginu, vegna þess að bankinn er sjálfur hluthafi. Á þessum fundi var hlutabréfamarkaðurinn almennt til umfjöllunar, og meðal annars komið inn á rekstur Icelandair. Það var tekið fram að bankinn væri hluthafi í Icelandair, og ætti því hagsmuna að gæta varðandi félagið, en það var ekki verið að veita ráðgjöf á grundvelli verðmats. Við höfum passað okkur vel á þessu, en í ljósi þess að við erum komin niður fyrir 10 prósent hlut, þá var vikið að rekstri Icelandair í yfirferð um hlutabréfamarkaðinn, en einungis á grundvelli upplýsinga sem eru aðgengilegar öllum," sagði Jón Guðni.

Sjá má frekari umfjöllun um kynningu sérfræðinga Íslandsbanka, á fyrrnefndum fundi, hér, en greint var frá kynningunni í Fréttablaðinu og á Vísi í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×