Viðskipti innlent

Selur 51% í Iceland

Jóhannes Jónsson hefur selt 51 prósent hlut sinn í fyrirtækinu Ísland-Verslun hf. sem á og rekur matvöruverslanir Iceland hér á landi. Kaupandinn er félag í eigu Árna Péturs Jónssonar en annað félag í hans eigu á hundrað prósent hlut í 10-11.

Eftir söluna mun Jóhannes eiga 12 prósent hlut í Ísland-Verslun. Annar hluthafi í Ísland-Verslun hf. er félag í eigu Iceland Foods í Bretlandi sem á 37 prósent hlut.

Samhliða sölunni lætur Jóhannes Jónsson af störfum sem framkvæmdastjóri félagins og tekur við sem stjórnarformaður. „Þetta var nú ekki planað hjá mér," segir Jóhannes. „En þó ljósi þess að veikindi mín hafa tekið sig upp aftur þá mun ég þurfa að verja tíma mínum og kröfum í að takast á við þau."

„Ég mun því ekki geta sinnt þeirri uppbyggingu á Iceland búðunum eins og þarf að gera. Ég verð því að eftirláta öðrum það verkefni. Ég treysti Árna Pétri fullkomlega fyrir því verkefni. Við höfum unnið saman áður og hann þekkir vel inn á matvörumarkaðinn. Undirbúningur og opnun verslana Iceland hér á landi hefur verið ævintýri líkast og er ég þakklátur þeim miklu og góðu móttökum sem ég hef fengið hjá viðskiptavinum okkar og óska eftir áframhaldandi stuðningi frá þeim. Það er von mín og trú að Iceland eigi eftir að vaxa og styrkjast á íslenska matvörumarkaðinum."

Árni Pétur segir í samtali við Vísi að ekki standi til að sameina rekstur 10-11 og Iceland. Hann vill ekki gefa upp kaupverðið á hlut sínum í Icelandverslununum en segir að félag sitt hafi greitt fyrir þennan hlut með eigin fé.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×