Handbolti

Suður-Kóreumenn töpuðu fyrir Sádum og eru úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Það gengur ekkert hjá Suður-Kóreu á HM í handbolta á Spáni en liðið hefur tapað fjórum fyrstu leikjum sínum og þar á meðal með tveimur mörkum á móti Sádi-Aarbíu í dag, 24-22. Sádi-Aarbar tryggðu sér með þessum sigri úrslitaleik um sæti í sextán liða úrslitunum á móti Hvíta-Rússlandi á laugardag.

Þetta leit reyndar ágætlega út fyrir Kóreumenn í fyrri hálfleik, Suður-Kórea skoraði tvö fyrstu mörkin, komst þremur mörkum yfir um miðjan hálfleikinn og var 13-11 yfir í hálfleik.

Sádar snéru leiknum við með frábærum fimm mínútna kafla þar sem þeir breyttu stöðunni úr 13-15 í 17-15. Sádi-Arabar voru síðan með leikinn í sínum höndum eftir það.

Þetta var fyrsti sigur Sáda á mótinu en þeir höfðu tapað þremur fyrstu leikjunum með tíu mörkum eða meira. Þetta þýðir líka að Sádi-Arabía og Hvíta-Rússland spilar hreinan úrslitaleik um sæti í sextán liða úrslitunum í lokaumferðinni en Suður-Kórea er úr leik.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×