Handbolti

Spánverjarnir sterkari á lokakaflanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Gestgjafar Spánverja eru áfram á sigurbraut á HM í handbolta á Spáni en þeir unnu sex marka sigur á Ungverjum, 28-22, í fjórða leik sínum í dag. Spánverjar unnu síðustu tíu mínútur leiksins 7-2 og hafa fullt hús eftir fjórar umferðir af fimm.

Ungverjar unnu tvo fyrstu leiki sína en hafa síðan tapað stórt á móti bæði Króatíu (21-30) og Spáni en þau lið mætast nú á morgun í hreinum úrslitaleik um sigurinn í riðlinum.

Daniel Sarmiento og Víctor Tomás skoruðu 6 mörk fyrir Spánverja en markvörðurinn Arpad Sterbik var valinn besti maður leiksins. Laszlo Nagy var markahæstur hjá Ungverjum með sex mörk.

Ungverjar voru skrefinu á undan framan af leik og tveimur mörkum yfir þegar sex mínútur voru til hálfleiks. Spánverjar náðu að jafna í 14-14 fyrir hálfleik en Ungverjar skoruðu ekki síðustu fimm mínútur hálfleiksins.

Spánverjar tóku frumkvæðið strax í byrjun seinni hálfleiks og stungu Ungverja síðan af á síðustu tíu mínútum leiksins. Spánverjar breyttu þá stöðunni úr 21-20 í 28-20 með því að skora sjö mörk í röð en Ungverjar skoruðu ekki framhjá Arpad Sterbik í níu mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×