Viðskipti innlent

Bakslag komið í efnahagsbatann á Íslandi

Greining Arion banka segir að nú hrannist upp vísbendingar þess efnis að hægja sé á efnahagsbatanum á Íslandi. Tölur um minnkandi einkaneyslu bendi til samdráttar í hagvextinum.

Í Markaðspunktum greiningarinnar segir að bakslag í einkaneyslu séu ekki óvænt tíðindi. Það hafi alltaf legið fyrir að á sama tíma og fjaraði undan áhrifum vegna sértækra aðgerða í þágu heimila myndi hægja á neysluvexti þeirra. Hér er átt við aðgerðir á borð við útgreiðslur á séreignasparnaði landsmanna.

Greiningin segir að þessar aðgerðir hefðu ekki gagnast að ráði nema til kæmi aukin fjárfesting sem skapaði í senn atvinnu, aukna framleiðslu, aukinn kaupmátt og þannig áframhaldandi vöxt í innlendri eftirspurn.

Síðan segir í Markaðspunktunum að því miður virðist sem það sé ekki að gerast. Að minnsta kosti benda innflutningstölur á fjárfestingarvörum ekki til þess að miklar breytingar hafi orðið á fjárfestingum fyrirtækja á síðasta fjórðungi ársins. Ekki sé ólíklegt að fjárfesting hafi haldið áfram að dragast saman en hún var fyrir í sögulegu lágmarki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×