Handbolti

Aron K: Enginn leikmaður frá Katar í liðinu

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Aron Kristjánsson þjálfari íslenska landsliðsins í handbolta á von á erfiðum leik gegn Katar í dag þegar liðin eigast við í lokaumferð B-riðilsins á heimsmeistaramótinu í Sevilla á Spáni. Það vekur athygli lið Katar er eingöngu skipað leikmönnum sem eru fæddir í öðrum löndum en Katar

„Lið Katar er sett saman með leikmönnum frá ólíkum löndum – það er enginn leikmaður frá Katar í liðinu. Þarna eru Túnismenn, Egyptar og Slóvenar. Þetta eru allt leikmenn sem hafa spilað handbolta í mörg ár og þekkja handboltann vel. Þeir hafa sýnt það í þessum leikjum í riðlinum að þeir geta alveg spilað handbolta og áttu mjög góðan leik gegn Síle. Þeir stóðu í Rússum lengi vel og einnig Makedónum sem þurftu að hafa mikið fyrir sigrinum gegn þeim. Við vitum að þetta verður erfiður leikur. Lykilatriði hjá okkur er að vera gríðarlega einbeittir í byrjun og spila af krafti – ef við gerum það ekki þá getur þetta orðið mjög erfitt.

Þeir eru með tvær öflugar skyttur sem geta skotið – sérstaklega ef þeir komast of nálægt vörninni. Við þurfum að þröngva þeim í skotin af 10 metra færi. Þeir geta átt það til að gera einföld mistök ef það er pressað á þá í varnarleiknum. Við þurfum að halda þéttleika í varnarleiknum og keyra hraðaupphlaupin í bakið á þeim. Þeir eru seinir aftur og þreytast þegar líður á leikina. Ágætis varnarleikur er þeirra styrkleiki og markvörðurinn hefur verið að verja sæmilega," sagði Aron en viðtalið í heild sinni má skoða með því að smella á örina hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×