Viðskipti innlent

Spá því að verðbólgan minnki í 3,9% í janúar

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs(VNV) standi í stað í janúar sem þýðir að ársverðbólgan minnkar úr 4,2% og niður í 3,9%.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að þeir telji að verðbólga muni hjaðna enn frekar í kjölfarið, en verður líklega að mestu á bilinu 3% - 4% næstu misserin.

Að vanda munu togast á útsöluáhrif annars vegar, og hækkun gjaldskráa og opinberra gjalda hins vegar í janúar. Opinberar hækkanir, bæði á óbeinum sköttum og gjaldskrám opinberra þjónustufyrirtækja, verða raunar töluvert minni á heildina litið en í fyrra að mati greiningarinnar, og í stórum dráttum í takti við verðbólgu undanfarinna 12 mánaða. Einkaaðilar hækkuðu auk þess margir verðskrár sínar fyrir þjónustu um áramót.

„Útsöluáhrif verða hins vegar svipuð og undanfarin ár samkvæmt spá okkar. Vegur tímabundin verðlækkun á fötum og skóm t.d. til ríflega 0,5% lækkunar VNV í janúar og lækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði til 0,1% lækkunar," segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×