Handbolti

Þjóðverjar unnu Frakka og tryggðu sér sigur í riðlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Þýskaland tryggði sér sigur í A-riðlinum á HM í handbolta á Spáni eftir nokkuð óvæntan en glæsilegan tveggja marka sigur á Frökkum í kvöld, 32-30, í lokaleik liðanna í riðlakeppnini. Það stefnir því í að Íslendingar mæti Frökkum í sextán liða úrslitunum á sunnudaginn.

Þjóðverjar urðu í fyrsta sæti í A-riðli og mæta liðinu í fjórða sæti í okkar riðli sem er eins og stendur Makedónía. Vinni Makedónar hinsvegar Dani á eftir þá senda þeir Ísland niður í fjórða sætið en annars geta íslensku strákarnir farið að undirbúa sig fyrir leik á móti Frökkum.

Þjóðverjar hafa heldur betur rifið sig upp eftir tap á móti Túnis í öðrum leik sínum a´mótinu og þetta var þriðji sigurleikur liðsins í röð. Patrick Groetzki var markahæstur hjá Þýskalandi með sex mörk en þeir Steffen Weinhold og Kevin Schmidt skoruðu báðir fjögur mörk. Nikola Karabatic var markagæstur hjá Frökkum með átta mörk en Luc Abalo skoraði sex mörk.

Frakkar voru með frumkvæðið í byrjun og voru 8-5 yfir eftir níu mínútna leik. Þjóðverjar náðu þá 6-1 spretti og komust í 11-9 þegar sextán mínútur voru liðnar af fyrri hálfleiknum.

Fjögur frönsk mörk í röð komu Frökkum hinsvegar í 13-11 og þeir voru síðan tveimur mörkum yfir, 16-14 þegar rúmar tvær mínútur voru til hálfleiks. Tvö síðustu mörk hálfleiksins voru þýsk og staðan var því 16-16 í hálfleik.

Þjóðverjar héldu áfram uppteknum hætti eftir hlé, skoruðu þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik og komust í 19-16. Frakkar jöfnuðu í 22-22 en þá kom annar frábær kafli þýska liðsins sem skilaði Þjóðverjum fimm marka forskoti, 27-22.

Frakkar náðu ekki að vinna upp þennan mun en þeir klúðruðu meðal annars tveimur vítaköstum á lokakaflanum og köstuðu frá sér boltanum eftir að hafa unnið hann 15 sekúndum fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×