Handbolti

Strákarnir strandaglópar í Sevilla | Frakkaleiknum kannski frestað

Þórir Ólafsson og Guðjón Valur Sigurðsson fá sér kaffi á lestarstöðinni.
Þórir Ólafsson og Guðjón Valur Sigurðsson fá sér kaffi á lestarstöðinni. mynd/vilhelm
Íslenska landsliðið í handknattleik er fast í Sevilla og kemst hvorki lönd né strönd. Liðið er að reyna að komast til Barcelona. Liðið er þegar búið að bíða í rúma 3 tíma á lestarstöðinni í Sevilla og enn er alls óvíst hvenær liðið kemst af stað.

Óveður gekk yfir Spán í nótt og féll fjöldi trjáa á lestarteinanna sem gerir það að verkum að lestarsamgöngur liggja niðri. Lestin fer af stað í fyrsta lagi eftir þrjá tíma en þá verða liðnir sex tímar síðan strákarnir mættu út á lestarstöð.

Verið er að athuga með flug til Barcelona en ljóst er að þessi dagur er farinn í vaskinn hvað varðar undirbúning fyrir 16-liða úrslitaleikinn á morgun gegn Frökkum.

Til greina kemur að sækja um frestun á leiknum þar sem íslenska liðið nær ekki að undirbúa sig. Frakkar hafa það aftur á móti náðugt í Barcelona enda voru þeir í að spila í nágrenni borgarinnar í gær. Liðin sitja því ekki við sama borð í undirbúningnum.

Það eru fleiri lið strönduð á lestarstöðinni í Sevilla og þar á meðal Danir. Þessi uppákoma er mjög neyðarleg fyrir lestarfyrirtækið sem er einn stærsti styrktaraðili HM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×