Handbolti

Rússarnir unnu æfingamót - mæta Íslandi í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Timur Dibirov.
Timur Dibirov. Mynd/Nordic Photos/Getty
Íslenska handboltalandsliðið er að undirbúa sig fyrir Heimsmeistaramótið í handbolta sem hefst á Spáni í næstu viku en sömu sögu er að segja af andstæðingum íslenska liðsins. Rússar, sem verða fyrstu mótherjar Íslendinga á mótinu, unnu fjögurra landa mót í Lettlandi á milli Jóla og nýárs.

Rússar unnu 18 marka sigur á Litháum, 34-16, 9 marka sigur á Lettum, 28-19, og loks fimm marka sigur á Hvít-Rússum, 26-21 í þremur leikjum sínum á þessu móti. Hvít-Rússar urðu í öðru sæti á mótinu eftir 34-18 sigur á Lettum og 33-23 sigur á Litháum.

Hvít-Rússar eru einmitt með íslenska landsliðinu í riðli í undankeppni EM 2014 og íslenska liðið vann átta marka sigur á Hvíta-Rússlandi, 36-28, í Laugardalshöllinni í lok október.

Markaskorið var að dreifast vel hjá rússneska liðinu í þessum þremur leikjum en enginn leikmaður skoraði meira en fimm mörk í þessum þremur leikjum. Eldar Nasyrov, leikmaður St. Petersburg í Rússlandi, var markahæstur í þeim öllum með 5, 5 og 4 mörk.

Ísland og Rússland mætast laugardaginn 12. janúar í Sevilla en daginn eftir spila íslensku strákarnir við Chile á meðan Rússar reyna sig á móti Dönum. Makedónía og Katar eru síðan hin liðin í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×