Viðskipti innlent

Aðalmeðferð enn ekki hafin í prófmálunum

BBI skrifar
Enn er aðalmeðferð ekki hafin í prófmálum sem ætlað er að skýra réttarstöðu þeirra sem hafa gengistryggð lán. Málin voru upphaflega ellefu en þeim hefur nú fækkað niður í 5-7 mál sökum þess að fjármálafyrirtæki hafa gefið eftir kröfur sínar.

Samkvæmt upplýsingum frá Umboðsmanni skuldara er búið að þinglýsa málunum flestum en þó mögulega ekki öllum.

Síðasta vor voru ellefu prófmál valin sem áttu að fá flýtimeðferð fyrir hérðasdómstólum. Gert var ráð fyrir að dómur yrði fallinn í héraði í öllum málunum fyrir nýliðin jól, eins og sjá má í þessari frétt. Sú reyndist þó ekki raunin og enn hafa þau ekki verið tekin fyrir hjá dómstólum.

Á síðasta ári féllu nokkrir dómar í málum sem varða gengislán, þar má einkum nefna hinn svonefnda febrúardóm og Borgarbyggðardóminn. Þeir vörpuðu ljósi á nokkur þeirra álitamála sem átti að reyna á í prófmálunum ellefu. Sökum þessara dóma og áhrifa þeirra tafðist afgreiðsla prófmálanna talsvert auk þess sem einhver fjármálafyrirtæki féllu frá kröfum sínum svo málunum fækkaði.

Enn standa þó nokkur álitamál eftir og mikilvægt að fá niðurstöðu í þau, enda varða þau hagsmuni margra.

Samkvæmt upplýsingum frá Umboðsmanni skuldara munu prófmálin ennþá fá flýtimeðferð fyrir dómstólum þó þeim hafi fækkað og þau tafist nokkuð. Erfitt er að fullyrða um það hvenær dómar munu falla í þessum prófmálum.

Í lok sumars hafði aðeins tveimur málum verið þinglýst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×