Viðskipti innlent

Skipakomum til Faxaflóahafna fjölgaði lítilsháttar í fyrra

Lítilsháttar fjölgun varð í skipakomum til Faxaflóahafna í fyrra miðað við árið á undan. Hér er miðað við skip sem eru 100 brúttótonn eða meira. Skipakomur urði samkvæmt því 1.471 en voru árið áður 1.454 talsins.

Heildarstærð þessara skipa nam rúmum 8,4 milljónum brúttótonna og hefur ekki verið meiri í sögunni að því er segir á vefsíðu hafnanna. Til samanburðar var um tæplega 7 milljónir brúttótonna að ræða árið áður. Skýringin á hækkun brúttótonnatölu liggur fyrst og fremst í stærri skemmtiferðaskipum sem komu til hafnar miðað við fyrri ár.

Fjöldi skipa sem komu til Faxaflóahafna varð mestur árið 2005, en þá komu alls 1.716 skip yfir 100 brúttótonn til hafnar. Eftir árið 2007 fækkaði skipakomum allnokkuð.

Samhliða stærri skemmtiferðaskipum hefur farþegum sem stíga á land í Reykjavík fjölgað verulega á milli ára. Árin 2013 og 2014 er ljóst að stærri skipum mun heldur fjölga þó svo að ekki verði mikil aukning í heildarfjölda skipa sem koma munu til Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×