Viðskipti innlent

Um 800 manns sóttu um störf flugliða

JHH skrifar
Um borð í WOW air.
Um borð í WOW air. Mynd/ Óskar Friðriksson
Um átta hundruð umsóknir bárust um störf flugliða hjá WOW air en félagið auglýsti störfin í lok nóvember. Um 50-60 manns verða ráðnir í sumarstörf flugliða en WOW air verður með fjórar vélar í rekstri og mun fljúga til 14 áfangastaða víðs vegar um Evrópu. Fjórir nýir áfangastaðir hafa bæst við leiðarkerfi WOW air frá því síðasta sumar; Barcelona, Amsterdam, Mílanó og Düsseldorf. Því var þörf á að ráða fleiri flugliða til starfa. Gert er ráð fyrir 450 þúsund farþegum með WOW air árið 2013, segir í tilkynningu frá félaginu.

Þessa dagana fara fram viðtöl við umsækjendur sem hafa reynslu af störfum flugliða og næstkomandi sunnudag munu 200 nýliðar þreyta próf í Háskólabíó. Að umsóknarferlinu loknu munu tilvonandi flugliðar WOW air sitja öryggis- og þjónustunámskeið. Þjálfun nýliða sem er bæði verkleg og bókleg tekur um tvo mánuði.

Næsta sumar munu um 100 flugliðar starfa hjá WOW air sem þýðir tvöföldun á fjölda flugliða frá síðasta sumri. Í hópi umsækjanda voru meðal annars lögfræðingar, hjúkrunarfræðingar, leikarar, kennarar, dansarar, líffræðingar og höfrungaþjálfari svo nokkur dæmi séu tekin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×