Skoðun

Ísland og vopnaviðskipti

Hermann Ottósson skrifar

Þriðjudagurinn 2. apríl 2013 var og er sögulegur dagur en þá var alþjóðlegur vopnaviðskiptasamningur samþykktur með miklum yfirburðum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það er fyrsti samningur sinnar tegundar og bannar ríkjum að selja eða flytja vopn og skotfæri ef þau hafa grun um að þeim verði beitt til að fremja stríðsglæpi. Sá góði samningur sem var samþykktur fyrir tveimur mánuðum uppfyllir að flestu leyti óskir Rauða krossins um alþjóðasamning sem getur orðið til þess að takmarka flæði léttvopna, sem nú grafa undan stöðugleika um allan heim og valda milljónum manna kvölum og angist.

Það er enn ánægjulegra fyrir Rauða krossinn á Íslandi að vita að íslensk stjórnvöld studdu með ráðum og dáð gerð samningsins og höfðu meira að segja áhrif á lokagerð hans. Með mikilli eljusemi utanríkisráðuneytisins og starfsmanna þess tókst Íslandi með stuðningi annarra ríkja og félagasamtaka að koma inn mikilvægu ákvæði sem bannar ríkjum að selja eða miðla vopnum sem verði beitt til að fremja kynbundið ofbeldi eða ofbeldi gegn konum og börnum þar sem það varðar brot á alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum. Það er í fyrsta sinn sem tengslin milli vopnaviðskipta og kynbundins ofbeldis eru viðurkennd í alþjóðasamningi og það má með réttu segja að Ísland eigi heiðurinn af þessu ákvæði sem fjöldamörg ríki og félagasamtök studdu dyggilega.

Rauðakrosshreyfingin skorar á ríki heims að undirrita, fullgilda og svo innleiða samninginn eins fljótt og verða má. Þannig geta þjóðríki lagt lóð sín á vogarskálarnar í baráttunni fyrir aukinni velferð milljóna manna um heim allan sem búa við vopnuð átök þar sem kerfisbundnum mannréttindabrotum er beitt gegn óbreyttum borgurum.

Rauði krossinn fagnar því einnig að íslensk stjórnvöld skuli hafa verið í hópi fyrstu ríkja sem undirrituðu samninginn í New York í gær. Rauði krossinn telur utanríkisráðuneytið eiga hrós skilið fyrir vasklega framgöngu í þessu máli og vonandi verður samningurinn fullgiltur og innleiddur fljótlega. ?Íslenska? ákvæðið um ofbeldi gegn konum og börnum er nokkuð sem við getum verið stolt af. Niðurstaðan staðfestir þá trú okkar að lítil ríki geti náð miklum árangri á alþjóðavettvangi með einbeitni, alþjóðasamvinnu og sterkum vilja til að láta gott af sér leiða.




Skoðun

Sjá meira


×