Viðskipti innlent

Mál Hannesar gegn slitastjórn tekið fyrir í dag

JHH og KHN skrifar
Hannes Smárason athafnamaður.
Hannes Smárason athafnamaður.
Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, hefur stefnt slitastjórn Glitnis vegna málsóknar slitastjórnarinnar á hendur Hannesi, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, Lárusi Welding og fleirum fyrir dómstól í New York. Mál slitastjórnarinnar var höfðað vorið 2010 en dómari í New York vísaði því frá þar sem það heyrði ekki undir dóminn.

„Þetta snýst nú bara um að fá endurgreiddan kostnað af þessari málsókn í New York. Það er verið að krefja slitastjórn Glitnis um skaðabætur í þessu máli," segir Gísli Guðni Hall, lögmaður Hannesar. Hann segir ekki nákvæmlega til um hve háar skaðabætur Hannes fer fram á en bendir á að málsvörnin hafi verið ansi dýr.

Aðspurður segir Gísli Guðni að það séu mál af þessu tagi í gangi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. „Það eru fleiri sem var stefnt þarna í New York og eru í svipuðum málum," segir hann. Mál PricewaterHouseCooper sé líklegast komið lengst en það mál var höfðað í apríl í fyrra. Lárus Welding hefur líkað höfðað sambærilegt mál gegn slitastjórninni.

Fyrirtaka var í málinu í dag en því svo frestað í tvær vikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×