Viðskipti innlent

Viðskiptafræðideild HÍ og Hagstofan hefja samsstarf

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Við undirritun samningins á milli Viðskiptafræðideildar HÍ og Hagstofu Íslands.
Við undirritun samningins á milli Viðskiptafræðideildar HÍ og Hagstofu Íslands. Mynd/HÍ
Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Hagstofa Íslands hafa undirritað samstarfssamning um að auka samstarf á sviði rannsókna. Nemendur í meistaranámi munu fá tækifæri til að vinna lokaverkefni sitt í samstarfi við Hagstofu Íslands. Þetta kemur fram á heimasíðu HÍ.

Ingjaldur Hannibalsson, deildarforseti Viðskiptafræðideildar, og Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri, undirrituðu samstarfsammning föstudaginn 13. september síðastliðinn.

„Með samstarfssamningnum er metnaðarfullum nemendum gert kleift að vinna að mikilvægum rannsóknum á íslensku efnahags- og atvinnulífi og þannig auka við þekkingu sína og færni við meðferð gagna og reynslu sína af rannsóknarvinnu,“ segir í tilkynningu.

Hagstofa Íslands mun útvega nemendum tímabundna aðstöðu til að sinna rannsóknavinnu sinni og fá einnig aðgang að gögnum og sérfræðingum stofnunarinnar. Samningurinn gerir Hagstofunni kleift að auka gæði gagna sinna og fá til liðs við sig metnaðarfulla nemendur til að sinna afmörkuðum og tímabundnum verkefnum.

„Aukin gæði og betri afurðir eru að auki til bóta fyrir Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fræðasamfélagið í heild sinni þegar litið er til framtíðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×