Viðskipti innlent

Sérstakur saksóknari segir útilokað að skýringar Sigurjóns standist

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurjón Þ. Árnason var bankastjóri Landsbankans.
Sigurjón Þ. Árnason var bankastjóri Landsbankans. Mynd/ GVA.
Sérstakur saksóknari segir útilokað að Landsbankinn hafi getað verið viðskiptavaki í eigin hlutabréfum enda myndi slíkt fyrirkomulag augljóslega skapa hagsmunaárekstra og auka hættuna á markaðsmisnoktun.

Sigurjón Þ. Árnason sagði í ítarlegu viðtali á Stöð 2 og Vísi í gær að viðskipti bankans með eigin fé hefðu verið stunduð frá því áður en hann hefði komið í bankann. Í raun hefði verið um viðskiptavaka að ræða. Þá þvertók hann fyrir að hann, eða aðrir starfsmenn Landsbankans, hefðu gert nokkuð rangt. Þannig svaraði hann ákæru sem sérstakur saksóknari gaf út á hendur honum og fimm öðrum fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik.

Þessum skýringum Sigurjóns er hafnað í ákærunni. Þar segir að útgefandi hlutabréfa geti samið við annað verðbréfafyrirtæki um að taka að sér viðskiptavakt með hlutabréfin, það er að tryggja með kaupum og sölum á bréfunum að eðlilegt verð á þeim myndist á markaði

Sérstakur saksóknari segir aftur á móti í ákærunni að Landsbankinn hafi tekið stórar stöður í hlutabréfum í Landsbankanum en viðskiptavakar leitist almennt við að mynda tvær hliðar á markaðnum. Landsbankinn hafi sett margfalt fleiri kauptilboð en sölutilboð í hlutabréf í Landsbankanum. Viðskiptavaki myndi hins vegar leitast við að aðlaga tilboð sín þar til jafnvægi hafi náðst og það magn bréfa sem hann kaupi ætti að vera nokkurn veginn til jafns við það magn sem hann selur.

Í ákærunni segir að netto kaup eiginfjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í Landsbankanum í lokunaruppboðum í Kauphöllinni og rétt fyrir lokunaruppboð hafi fjölmarga viðskiptadaga verið svo hátt hlutfall af heildarviðskiptum með hlutabréf í bankanum að háttsemi ákærðu hvern þessara viðskipta daga sé í eðli sínu sjálfstætt markaðsmisnotkunarbrot.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×